Nokkrar staðreyndir um örugg matvæli

til umhugsunar

Það getur vel verið að aukinn innflutningur á erlendu kjöti hafi jákvæð efnahagsleg áhrif. En hvað með lýðheilsuáhrif?

 

Skammtímahugsun, sem einkennir oft Íslendinga, stendur með jákvæðum efnahagslegum áhrifum. En til hvers eru þau ef við fórnum öryggi og heilsu landa okkar í framtíðinni?

 

Innflutningur á kjöti sem alið er á sýklalyfjum í fóðri eða til þess að fyrirbyggja sjúkdóma í búfénaði skapar fleiri vandamál en hann leysir. Áhættan er skýr: aukið sýklalyfjaónæmi er ein helsta lýðheilsuógn heimsins. Afhverju viljum við taka þá áhættu?

 

Vissulega þarf Ísland að flytja inn neysluvörur – við búum á eyju og getum ekki staðið undir framleiðslu á öllu því sem við neytum. En á sama tíma er eyjan okkar helsta vörn gegn þeim ógnum sem landbúnaður erlendis stendur frammi fyrir.

 

Við verðum að gera kröfur til gæða. Neytendur eiga rétt á að vita hvað er í þeirri vöru sem þeim er boðið upp á að neyta. Og við getum líka verið jákvætt fordæmi fyrir heiminn.

 

Ekki er um það deilt að tilskipanir EES setja okkur þær kvaðir að heimila frjálsari innflutning. En höfum líka í huga að forsendur samningsins eru gjörbreyttar. Sýklalyfjaónæmi var til dæmis ekki vandamál fyrir 20 árum, en er það núna.

 

Við verðum að hugsa til lengri tíma. Fórnum ekki lýðheilsu fyrir skammtímahagsmuni.